Um okkur

Ullarvinnslan Þingborg rekur sögu sína

Ullarvinnslan Þingborg rekur sögu sína aftur til ársins 1990, er hópur kvenna á Suðurlandi sótti þar námskeið í ullariðn, undir stjórn Helgu Thoroddsen vefjarefnafræðings og Hildar Hákonardóttur veflistakonu.  Kennd voru bæði gömul og ný vinnubrögð við ullarvinnslu og almenn fræðsla um eiginleika ullar og vinnslu hennar.

Fljótlega kom upp hugmynd að verslun með ullarvörur og innan árs frá því fyrsta námskeiðið var haldið opnaði námskeiðshópurinn verslun í gamla samkomuhúsinu í Þingborg í gamla Hraungerðishreppi, nú Flóahreppi og stofnað var samvinnufélag utan um hópinn og reksturinn og voru stofnfélagar 35.

Fyrstu árin skiptu Þingborgarkonur með sér verkum í versluninni á sumrin, en hún var eingöngu opin yfir sumarmánuðina. Síðan hafa einstakar konur innan hópsins tekið að sér að reka verslunina og stundum tvær saman. Verslunin var alltaf rekin á kennitölu samvinnufélagsins en frá 1. janúar 2019 hefur hún verið rekin sem einkahlutafélag af einni úr hópnum. Auk þeirrar sem rekur verslunina er starfskraftur í 60 % hlutastarfi og því hefur ræstst sú sýn, sem lagt var upp með, að skapa atvinnu fyrir konur á svæðinu.

Verslunin tekur ullarvörur í umboðssölu og eins eru keypt inn nokkuð af vörum til að selja. Allar prjónavörurnar í versluninni eru úr Þingborgarlopa, en hann er sérunninn fyrir Þingborg af Ístex og svo hefur verið allt frá árinu 1992. Þingborgarkonur fara í Þvottastöð Ístex á Blönduósi einu sinni á ári og velja ull í lopann sem svo er þveginn og kembdur hjá Ístex í Mosfellsbæ. Þetta ásamt kembivélinni sem er í húsinu eru hryggjarstykkin í starfsemi Þingborgar.

Lopapeysur eru megin uppstaðan af því sem selt er í Þingborg. Margar úr hópnum og þær sem leggja inn peysur hanna sín eigin mynstur og þannig verður til mjög fjölbreytt flóra af lopapeysum.

Ullarvinnslan hefur reynst mikilvægur þáttur í þeirri viðeitni að halda við hefðum í ullarvinnslu og ekki síður að skapa nýjar. Þingborgarhópurinn lítur björtum augum til framtíðar, ullin á bjarta framtíð fyrir sér, nú þegar augu fólks eru að opnast fyrir því að nota ull og önnur náttúruleg efni til fatagerðar í stað gerviefna.

Þingborgarkonur

Margrét Jónsdóttir býr á Syðra-Velli í Flóa. Hún er fær kaupkona sem rekur verslunina í Þingborg með miklum myndarskap og er kjölfestan í hópnum. Magga er líka kúabóndi, sauðfjárbóndi, prjónakona, spunakona, sveitastjórnarmaður, smiður, flísari & pípari, svona mætti lengi telja. Prjónahönnuður, gaf ásamt Önnu Dóru systur sinn út bókina Lopalist. Einnig er til úrval stakra uppskrifta hennar og prjónapakkninga í Þingborg.

Frábær matráður og fararstjóri, skipuleggur ævintýraferðir jafnt innanlands sem um ýmis lönd og heldur vel utan um hópinn. Magga hefur mjög góða nærveru og smitandi hlátur, allar komum við endunærðar af fimmtudagsfundunum í Þingborg.

Hápunkur ársins er þó ferðin á Blönduós sem hún skipuleggur: vinnuferð til að velja og flokka ull í Þingborgarlopann okkar okkar og bandið, vinnuferð sem að endingu verður að árshátíð með góðum félagskap og hátiðarmat.

Halldóra Óskardóttir býr á Selfossi. Hún stjórnar kembivélinni, hillurnar fyllast af lyppum og kembum og reyfiseigendur geta fengið ull sína þvegna og kembda. Hún sér líka um ýmiskonar reikningshald og flytur inn rokka og fleira fyrir Þingborg.

Hún selur handlitaða bandið sitt under nafninu „Dóru band“ ásamt þæfðum tehettum, lyklakippum, peysupakkningum ofl.

Að sumarlagi má oft rekast á Dóru úti í náttúrunni að safna plöntum. Heima malla pottar með grösum og ull og allt í einu bætast allskonar litir við á bandvegginn hennar í Þingborg. Á handverksdegi gamalla hefða birtist Dóra í búningi fornkvenna, með pott á hlóðum og sýnir okkur hvað jurtalitun stendur á gamalli hefð.

Katrín Andrésdóttir býr í Reykjahlíð á Skeiðum. Hún er fv. héraðsdýralæknir, beitir sér fyrir velferð dýra og umhverfisvernd. Þess vegna horfir hún gagnrýnum augum á uppruna og nýtingu ýmissa textílefna og bendir óspart á kosti ullarinnar. Hún segist vera viðutan sjóndapur nörd, fær margar hugmyndir og er ekki spör á að leyfa öðrum að njóta.

Katrín litar lopa og band og jafnvel heilu peysurnar og selur undir nafninu Slettuskjótt. Undir nafninu Móða sameina Vilborg og hún þekkingu sína, vélprjón, litun og silkiprent. Katrín á heila hjörð af prjónavélum, prjónar allskonar með þeim og líka handprjónunum. Bjó í Noregi í níu ár, víðförul og skoðar alltaf handverk. Með hennar reynslu og næma auga fyrir hönnun og tísku dregur hún alla með sér inn í 21 öldina.

 Maja Siska er þýsk að uppruna, hún hefur búið í ýmsum heimshornum en síðan myndað sterka tengingu við Ísland eins og sýning hennar „Óður til kindarinnar“ ber vott um.

Maja býr á bænum Skinnhúfu í Holtum með hesta, hænur, hund og eiginmann. Arkitekt, listakona, hestakona, náttúrubarn og prjónahönnuður m.m. peysan Silla er ein af mörgum fallegum peysum hennar.

Þegar hún er ekki að sýsla með ull þ.e. að vefa, lita, spinna, þæfa eða prjóna leigir hún út sumarbústaði til ferðamanna. Undanfarin ár hefur Maja skipulagt námskeið fyrir Spunasysturnar með innlendum og erlendum kennurum og stjórnað hópferðum á ullarvikuna á Hjaltlandseyjum og Rhinebeck sýninguna í USA. Maja skrifar greinar í PLY tímaritið sem fjallar um spuna og kennir lokkaspuna.

Vilborg Ástráðsdóttir býr með manni, börnum og dýrum á Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Náttúrubarn, hestakona, „fjallafála“, leikskólakennari með meistaragráðu í list- og verkmenntun. Prjónar mikið og hannar nútímalegar prjónauppskriftir. Notar eigin ull og ræktar nú feldfé ásamt ýmsum litum.

Saumar og silkiprentar undir nafninu hialin.is, sérlega falleg og klæðileg föt. Náttúrumynstrin hennar eru einstök, landslag, jurtir og jafnvel hauskúpur verða henni að yrkisefni. Hún hefur líka alltaf umhverfisvitundina, siðlega framleiðslu og fullnýtingu að leiðarljósi.

Myndlistakonan okkar, hannar vörumerki Ullarvikunnar og Slettuskjótts eru ágæt dæmi. Hún hefur líka einstakt auga fyrir uppsetningu og útliti.

Slettuskjótt X Híalín er Móða, vélprjón Katrínar og silkiprent Vilborgar verður að einstökum flíkum.

Vörumerki